Allt um af hverju BERT skiptir máli!

Allt um af hverju BERT skiptir máli!

Google er sífellt að uppfæra tæknina sína og BERT uppfærslan er af mörgum talin ein mesta breyting frá því að Google settu RankBrain í loftið árið 2015. Þetta þarftu að vita um BERT og af hverju þessi uppfærsla skiptir máli.  

Allir sem starfa við leitarvélabestun fylgjast vandlega með öllum breytingum sem Google gerir, enda langstærsta leitarvélin á netinu í dag. Í október síðastliðnum uppfærði Google hjá sér tæknina og hefur sú uppfærsla fengið nafnið BERT, sem stendur fyrir Bidirectional Encoder Representations from Transformers. 

Í stuttu máli sagt, þá auðveldar þessi uppfærsla gervigreind Google að skilja tungumálið eins og við notum það (á ensku: natural language queries). Hingað til hefur gervigreindin átt erfitt með mörg orð, sérstaklega þau sem eru með margar ólíkar merkingar, og jafnvel skipt þeim út fyrir önnur orð sem gervigreindin skilur betur. BERT auðveldar hins vegar gervigreindinni að átta sig á samhengi orðanna og finna þannig út heildarmerkingu þeirra leita sem notendur gera.

Þetta þýðir að Google á auðveldara í dag með að skilja venjulegar spurningar, eins og við myndum spyrja hvert annað, og því þarf notandinn ekki lengur að reyna finna sjálfur út hvaða leitarorð eru best til þess fallin að fá viðeigandi og góðar leitarniðurstöður.

Hvernig virkar BERT?

BERT er keyrður áfram af tauganeti (e. neural network) sem er stöðugt að læra, jafnvel hraðar en við áttum okkur almennilega á. Í raun mætti líkja þessu neti við heila í barni sem er að læra tungumál og samskipti, það er sífellt að hlusta, vega og meta samhengi og skoða hvernig orðin raðast saman og mynda heildræna merkingu.

Barn áttar sig á því að þegar þú leggur diska á borð að skammt er í mat, það lærir einnig að þú notar ákveðin orð þegar þú vilt láta vita að maturinn sé klár og setur þetta allt saman í samhengi við látbragð þitt og alla aðra orðanotkun.

BERT og algorithminn sem er undir húddinu gerir Google þannig kleift að skilja tungumál næstum eins vel og manneskja gerir. Notendur geta því búist við að geta notað eðlilegra tungutak við leitir og fá viðeigandi leitarniðurstöður.

BERT er enn að læra og Google byrjaði á því að kynna BERT fyrir notendum sem leita á ensku. En önnur tungumál munu fylgja í kjölfarið.

Hverju breytir BERT? Hvernig breytir þetta leitarvélabestun?

Það er afar erfitt (og jafnvel óhugsandi) að besta síður út frá BERT uppfærslunni, þar sem hér er um að ræða breytingu sem hjálpar Google að skilja tungumál og tungutak hvers og eins. Því er ekki hægt að mæla með öðru en að halda áfram að besta efni og vefsíður út frá þörfum markhópsins.

Að því sögðu, þá er engu að síður mikilvægt að fylgjast með hvernig umferð í gegnum leitarvélar er að þróast, og þá sérstaklega þegar kemur að lengri leitarstrengjum (e. long-tail queries). Ef þessir strengir eru ekki á hefðbundnu og eðlilegu máli, er hættan sú að þú munir tapa umferð. Oft er umferðin sem kemur í gegnum lengri leitarstrengi afar dýrmæt, enda notandinn kominn lengra í kaupferlinu, þannig að við mælum með að greina hverjir þessir strengir eru (ef það hefur ekki verið gert) og fylgjast náið með umferð sem kemur í gegnum þá.

Þá má ekki gleyma að leitarvélabestun er sífelld og stöðug vinna. Þú þarft alltaf, óháð breytingum hjá Google, að hafa augun á markmiðum markaðssetningarinnar, fylgjast með þeim leitarorðum þar sem þú vilt birtast í niðurstöðum og betrumbæta þar sem þörf er á.

Stærsta breytingin

Það sem er hvað áhugaverðast við BERT er, að þörfin fyrir að besta efni nákvæmlega út frá ákveðnu leitarorði er kannski ekki jafn rík og áður. Google skilur samhengi miklu betur nú og ef uppsetning texta og gagnalagsins undir (Schema o.s.frv.) er vel úr garði gerð, hjálpar það Google að birta efnið þitt þegar það á við.

Þetta samhengi er þannig orðið gríðarlega mikilvægt og þar getum við haft áhrif. Með því að vinna efnið vel, skrifa það út frá þörfum markhópsins og tryggja að uppsetning gagnalagsins sé eins og best verður á kosið, mun BERT uppfærslan hjálpa okkur að tengjast réttum notendum.

Við getum hjálpað þér

Ef þú ert algjörlega lost í öllu þessu tæknitali og vilt bara að notendur geti fundið vörur þínar og þjónustu á Google, settu þig endilega í samband við okkur. Við tölum líka mannamál.

Comments are closed.