Growth hacking eða framfaramiðuð markaðssetning er aðferðarfræði sem heilmikið hefur verið rætt um á síðustu árum. Þessi aðferðarfræði gengur út á ákveðna verkferla sem miða að því að auka umferð og/eða sölu á vefsíðum og í vefverslunum.
Ég fæ nokkuð oft þá spurningu út á hvað starf mitt gangi. Flestir skilja það mæta vel þegar ég segist aðstoða fyrirtæki og þjónustuaðila við markaðssetningu á netinu. Spyrja jafnvel hvort það snúist í raun ekki bara um að hanga á netinu.
Hins vegar kemur oft undarlegur svipur á fólk þegar ég segist vinna eftir skipulagðri aðferðafræði, sem snýr að því að styðja við vöxt og nota til þess gögn, mælingar og ýmsar prófanir. Aðferðafræði sem oft er kölluð á ensku Growth Hacking. Þetta hefur verið þýtt sem framfaramiðuð markaðssetning.
Hvað er Growth Hacking?
Growth hacking er aðferðafræði við að ýta undir vöxt hjá sprota- og smærri fyrirtækjum, þannig að þau geti staðið undir sér. Aðferðafræðin gengur út á að hagnýta ýmis vefgreiningargögn og gögn úr prófunum til að aðlaga og betrumbæta bæði vefsíðu, vörur og þjónustu, eins hratt og unnt er.
Í raun mætti skipta ferlinu í fjóra meginþætti; öflun gagna og öðlast skilning, tilgátur, forgangsröðun tilgátna og prófanir. Ferlið er þannig í hring og er endurtekið aftur og aftur, til að ná fram sem bestum árangri.
Öflun gagna og öðlast skilning
Gögn leika lykilhlutverk í þessari aðferðafræði. Við þurfum að hafa aðgang að vefgreiningargögnum, gögnum um notendahegðun og svo mætti lengi telja. Það er hægt að nota ýmis tól þess að safna þessum gögnum, allt frá Google Analytics og vefgreiningartólum samfélagsmiðla til hvers kyns A/B prófana tóla og jafnvel spurningatóla á borð við Survey Monkey.
Gögnin ein og sér eru þó ekki nóg. Því við þurfum að setja gögnin í samhengi við það sem við erum að gera og ekki að gera. Þannig öðlumst við skilning á gögnunum, sem gerir okkur kleift að fara í næsta skref.
Tilgátur settar fram
Tilgátur eru settar fram og þær rökstuddar með vísun í annars vegar gögnin, og hins vegar markmið markaðssetningar. Gögnin leiða okkur þannig áfram og skilningur okkar á þeim kallar fram tilgátur um hvað kunni að leiða til betri árangurs, t.d. meiri umferðar eða aukinnar sölu.
Forgangsröðun tilgátna
Tilgátur geta verið af öllum toga, allt frá því að nota fleiri myndir á samfélagsmiðlum til þess að breyta um lit á aðgerðarhnöppum á vefsíðu og enn til algjörrar endurhönnunar á tilteknum síðum.
Við þurfum að forgangsraða þessum tilgátum og tekur forgangsröðunin mið af markmiðum markaðssetningarinnar. Þannig gæti aukin myndanotkun á samfélagsmiðlum stuðlað að bættri upplifun notenda af vörumerki á meðan litabreyting á aðgerðahnöppum gæti haft áhrif á notendahegðun á vefsíðu.
Markmiðin stýra því hvert vægi hverrar tilgátu sé og þannig í hvaða röð þær eru prófaðar, eða, ef markaðsfé er af skornum skammti, í hvaða prófanir sé ráðist.
Prófanir
Næst eru tilgátur prófaðar. Yfirleitt er stuðst við einhvers konar A/B próf, en hérlendis getur smæð markaðarins hreinlega komið í veg fyrir að slík próf séu fýsileg, enda til að fá skýr og góð gögn úr því þyrftu þau að standa ansi lengi.
Það þarf því ígrunda vandlega hvers kyns prófanir séu gerðar, sem og að skilgreina fyrirfram hvað sé viðunandi árangur. Þá er afar mikilvægt að gæta að því að safna eins miklu gögnum og unnt er á meðan prófunum stendur.
Hverju skilar þetta?
Growth Hacking er fyrst og fremst leið til að ná í viðskiptavini og auka veltu.
Það þýðir hins vegar að við þurfum að geta skoðað og metið hverja aðgerð út frá því hvar viðskiptavinurinn er staddur í kaupferlinu. Margir sem starfa við þetta nota svokallaða sjóræningatrekt, eða AARRR trektina.
Með því að styðjast við hana eigum við líka auðveldar með að koma auga á hvaða rásir virka best hverju sinni, til að styðja við þær aðgerðir sem við viljum grípa til.
Acquistion
Hvernig náum við til tilvonandi viðskiptavina? Hvaða leiðir eða rásir erum við að nota? Þessi hluti trektarinnar snýr af leitarvélabestun, samfélagsmiðlun, markpósti, auglýsingar í hefðbundnum miðlum og svo mætti lengi telja.
Activation
Hvernig fáum við tilvonandi viðskiptavini til að kynna sér vöru eða jafnvel prófa hana? Hér skiptir máli að skoða heimasíðu, lendingarsíður og vörusíður, að ógleymdri vörunni sjálfri.
Retention
Hvernig viðhöldum við áhuga tilvonandi viðskiptavina? Hægt er að nota tölvupóst, svo sem sjálfvirkan póst, hvers kyns tímastilltar aðgerðir eins og sprettiglugga, bloggfærslur o.s.frv.
Revenue
Hversu margir tilvonandi viðskiptavinir urðu að viðskiptavinum? Gott er að notast við remarketing auglýsingar hér, þá miðaðar að þeim notendum sem enn hafa ekki orðið að viðskiptavinum, hvers kyns lead generation o.s.frv.
Referral
Hversu margir viðskiptavina okkar hafa mælt með vöru okkar eða aðstoðað aðra við að kaupa hana? Hér er hægt að notast við leiki og keppnir, tölvupósti eða widgets sem auðvelda viðskiptavinum að mæla með vöru og þjónustu.
Markaðsfræði er grunnurinn
Markaðsfræði er grunnurinn að growth hacking og í raun væri ekki hægt að vinna út frá þessari aðferðafræði ef ekki er búið að vinna ákveðna grunnvinnu. Þannig þarf að vera ljóst hver markmið markaðssetningarinnar eru og hver markhópurinn er hverju sinni.
Markmiðin þurfa að vera sértæk, mælanleg, viðeigandi, tímasett og það verður að vera hægt að ná þeim. Markhópurinn þarf að vera þekktur, sem og persónueiginleikar hvers hluta.
Ef ekki hefur verið farið í þessa vinnu, er nær óhugsandi að ná tilætluðum árangri í Growth Hacking, eins og annarri markaðssetningu.
Hafðu samband
Ekki hika við að hafa samband ef þú vilt aðstoð við markaðssetningu á netinu. Við erum boðin og búin til að aðstoða þig.