Líklega þarf ekki að tíunda mikilvægi markhópagreiningar fyrir markaðsfólki. Á það jafnt við um markaðssetningu á netinu sem og í hefðbundinni markaðssetningu.
Ein af fyrstu spurningunum sem við spyrjum viðskiptavini okkar er, hvort að það sé til staðar markhópagreining. Oft fáum við skýr og greinargóð svör, en stundum kemur fyrir að slík greining sé ekki fyrir hendi og að það þurfi þá að vinna hana.
Í stuttu máli sagt, þá gengur markhópagreining út á að bera kennsl á hvaða þættir það eru sem einkenna ákveðna hluta markhópsins eða markhópinn í heild sinni. Með því að hluta niður markhópinn og búa til svokallaðar kaupendapersónur úr hverjum hluta, öðlumst við oft dýpri sýn á fyrir hvern við erum að markaðssetja og útbúa efni, hvort heldur sem er á vefsíðum okkar eða samfélagsmiðlum.
Þessi gögn eru í raun lífsnauðsynleg til að geta markaðssett vörur og þjónustu (og í raun mætti spyrja hvort um markaðssetningu sé að ræða, ef við erum ekki að vinna út frá slíkum gögnum, en það er kannski efni í aðra umræðu).
Markhópagreining
Þegar við greinum markhópinn þá reynum við að safna eins miklum og ítarlegum gögnum og við mögulega getum. Gott er að vita lýðfræðilegar upplýsingar, s.s. aldur, kyn, búsetu og þess háttar, en við viljum vita meira. Við þurfum líka að vita hvað sameinar hópinn, t.d. áhugamál, lífstíll eða menntun. Að lokum þurfum við að vita, hvar og hvernig sé hægt að ná til þessa markhóps.
Það er ekki alltaf auðvelt að finna svör við öllum þessum spurningum. Hér eru nokkrar leiðir til að rannsaka markhópinn.
Vefgreiningargögn
Við getum fengið eitthvað af gögnum um notendur í gegnum Google Analytics eða önnur álíka greiningartól. Þar getum við fundið ýmis lýðfræðileg gögn, svo sem kyn og aldur sem og hvaðan umferðin er að koma. Þá er hægt að sjá í Google Search Console hvaða leitarorð notendur nota til að finna heimasíðuna þína, sem getur veitt okkur innsýn í hvaða þarfir varan uppfyllir hjá þeim. Einnig er auðvelt að sjá hvaða miðla notendur nota til að finna vefsíðuna þína. Allt eru þetta ákaflega hjálpleg gögn við greiningu á markhópum.
Reynsla og þekking innanhúss
Maður skyldi aldrei vanmeta reynslu og þekkingu þeirra sem starfa daglega við aðstoða viðskiptavini. Því er gott að setjast niður með þeim sem eru í daglegum samskiptum við viðskiptavini og fá upplýsingar hjá þeim. Þau þekkja hvaða spurningar brenna í brjóstum viðskiptavina og það eru ómetanlegar upplýsingar.
Gögn af samfélagsmiðlum
Greiningartól samfélagsmiðla á borð við Facebook eru afar öflug og það er hægt að komast að ansi miklu um markhópinn með því að skoða þessi gögn. Þannig er hægt að fylgjast með ákveðnum umræðuþráðum, hópum og spjallborðum til að komast að því hvaða spurningar eru ofarlega í huga hugsanlegra viðskiptavina, sem og skoða hvernig best sé að nálgast viðkomandi markhópa.
Í raun mætti segja að klisjan um mikilvægi þess að hlusta á samfélagsmiðlum hafi enn sama vægi og áður.
Rannsóknir
Þá er hægt að leita til fyrirtækja á borð við Capacent um markhópagreiningar og gögn þar að lútandi, sem og að framkvæma eigin rannsóknir, t.d. með því að senda kannanir út á núverandi viðskiptavini eða eiga viðtal við nokkra útvalda viðskiptavini.
Að setja upp kaupendapersónu
Þegar við höfum greint markhópinn, er ágætt að skipta honum niður eftir þeim þáttum sem sameina ákveðna hluta hans. Fyrir hvern hluta útbúum við síðan kaupendapersónu.
Gott er að hafa í huga, að til þess að kaupendapersónur verði að gagnlegu tóli er mikilvægt að gögnin sem safnað hefur verið séu sett í samhengi við reynslu sölu- og þjónustufólks og helst einnig við reynslu viðskiptavina.
Eftirfarandi getur verið sniðugt að setja niður:
- Aldur
- Kyn
- Búseta
- Tekjur
- Menntun
- Fjölskyldustærð
- Áhugamál
- Tenging við vöru/þjónustu
- Hvernig getur vara/þjónusta komið viðkomandi að gagni?
- Hvernig er best að ná til viðkomandi?
- Lykilorð
Auðvitað er þessi listi ekki tæmandi og eins víst að ekki eiga alltaf öll þessi atriði við. Þá finnst okkur gott að gefa viðkomandi kaupendapersónu nafn og setja jafnvel mynd við þessa útlistun, þannig að auðveldara sé að sjá viðkomandi fyrir sér.
Þessar upplýsingar nýtum við síðan til þess að útbúa efni fyrir vefsíður og samfélagsmiðla, sem og hjálpar þetta okkur að gera auglýsingar enn hnitmiðaðri.
Markhópagreining skiptir máli
Fyrir skemmstu unnum við markhópagreiningu fyrir viðskiptavin. Viðkomandi hafði í gegnum tíðina náð ágætum árangri með því að auglýsa nær eingöngu í gegnum samfélagsmiðla en nokkuð hafði dregið úr sölum í gegnum þá rás, sem og kostnaðurinn við þær auglýsingar óx hratt.
Eftir að við höfðum safnað gögnum og sett þau í samhengi við reynslu og þekkingu starfsfólks og viðskiptavina, kom í ljós að stærsti og mikilvægasti hluti viðskiptavina var ekki jafn duglegur á samfélagsmiðlum og áður. Hegðun þessa hóps var að breytast, þannig að þörfin fyrir bættan sýnileika á leitarvélum, í öppum og á bloggum var meiri en áður. Þannig hafði svarið við spurningunni: Hvernig er best að ná í viðkomandi? breyst frá því sem áður var.
Við settum því aukinn kraft í leitarvélabestun, skrifuðum fleiri blogg og bættum auglýsingar hjá Google Ads, ásamt því að gera auglýsingarnar á Facebook hnitmiðaðri. Árangurinn lét ekki á sér standa.
Við getum hjálpað
Við erum boðin og búin að hjálpa þér að ná meiri árangri í markaðssetningu á netinu. Hafðu endilega samband. Við hlökkum til að heyra frá þér.