Þróun leitarvélabestunar á nýju ári

Þróun í leitarvélabestun á nýju ári

Þróun í leitarvélabestun hefur verið nokkuð ör og má búast við að það haldi áfram á nýju ári. Breytingar sem hafa þegar komið fram munu áfram þróast en erfiðara er að spá fyrir um hvaða nýjungar munu koma fram. Hér eru nokkur atriði sem munu þróast áfram og gott er að hafa á bakvið eyrað þegar unnið er að leitarvélabestun

Google er að taka miklum breytingum. Fyrirtækið hefur verið að þróa og útfæra leitarniðurstöður sínar jafnt og þétt, þannig að notendur finni í sem flestum tilfellum viðeigandi niðurstöðu eða svör í leitum sínum. Smátt og smátt hafa þannig niðurstöðurnar innihaldið sífellt meiri og betri upplýsingar, þannig að notendur þurfa í raun ekki alltaf að smella á einhverja leitarniðurstöðu og lesa langan texta í leit að svari.

Í raun er Google að gera slíkt hið sama og margir samfélagsmiðlar hafa unnið að á undanförnum árum, þ.e. að búa til svæði þar sem notendur þurfa í raun aldrei að fara út af eða svokallaða afgirta garða (e. walled gardens).

Þetta er bersýnilegt þegar skoðuð er þróun heildar smellihlutfalls í gegnum snjalltæki. Það er ekki tilviljun að það hefur lækkað skarpt á undanförnum árum og er hlutfall lífrænna smella komið undir 30% í Bandaríkjunum. Þetta er nokkuð sem við, sem búum til efni og viljum fá sem mesta umferð í gegnum leitarvélar, þurfum að hafa í huga.

Þróun í leitarvélabestun - Google CTR
Mynd fengin af fourweekmba.com

Við þurfum því að endurhugsa efnisgerðina og vinna hana út frá þessu, þannig að okkur takist að fá notandann annars vegar til að smella á leitarniðurstöðuna okkar, og hins vegar að notandinn umbreytist í viðskiptavin.

Hvernig er best að standa að því?

Hér eru nokkur atriði sem gott er að hafa í huga er varða leitarvélabestun á nýju ári.

Bestun út frá tilgangi leitar notanda

Ok, þetta er kannski frekar óþjál og sérkennileg fyrirsögn. Hvernig vitum við tilgang leitar notanda? Við vitum hann í raun ekki, en Google er orðið býsna klókt í að átta sig á honum. Það sem við getum hins vegar gert er, að tryggja að Google skilji efnið okkar frá A til Ö.

Til að byrja með þurfum við að vita fyrir hvern efnið er. Þannig skiptir máli að þekkja vel markhópinn og vinna út frá honum. Það getur verið gott, eins og kennt er í markaðsfræði, að útbúa og gera greiningu á hverjir eru helstu persónueiginleikar markhópsins (e. marketing persona). Við þurfum jú að skilja fyrir hvern efnið er ætlað, sem og hvaða tilgangi það þjónar.

Þá er líka mikilvægt að tryggja að undirliggjandi gagnaskráning (sjá neðar), t.d. Schema og Entity skráningar, séu eins ítarlegar og vera má. 

Raddstýrðar leitir

Þó að raddstýrðar leitir séu kannski ekki orðnar mjög fyrirferðamiklar á íslensku, þá þurfa þau fyrirtæki og stofnanir sem miða á erlenda (og þá sérstaklega enskumælandi) markaði að gefa góðan gaum að þeim. Notkun raddstýringar í snjalltækjum er að aukast og er býsna mikið notuð meðal notenda yngri en 50 ára.

Þróun í leitarvélabestun - notkun á raddstýringu
Yngri markhópar nota raddstýrða tækni mikið. Sjá rannsókn PWC hér: https://www.pwc.com/us/en/advisory-services/publications/consumer-intelligence-series/pwc-voice-assistants.pdf

Raddstýrðar leitir eru að miklu leyti langar leitarfyrirspurnir (e. long tail search queries). Til að svara þeim fyrirspurnum þurfum við að tryggja að Google Assistant eigi auðvelt með að skilja efnið okkar. Þannig er mikilvægt að útbúa efni þar sem einfalt er að finna svör, svo sem FAQ (og merkja það rétt í markup-inu).

Þá er líka sniðugt að tryggja að fyrirtækið þitt sé sýnilegt og vel útfært á Google My Business. Þar er gott að vinna út frá því að fá notendur ýmist til að hringja eða senda skilaboð.

Google Discover

Google Discover er tækni sem auðveldar notendum að finna gott efni án þess að leita! Þannig er hér í raun um að ræða leitir án leitarorða. Google finnur þannig efni sem gervigreindin telur henta viðkomandi notanda og birtir viðkomandi.

Við erum að sjá vaxandi notkun á þessu og má búast við að hún muni enn aukast.

Mynd fengin úr Google Search Console sem sýnir smelli og birtingar í gegnum Google Discover.

Til að ná árangri hér, þarf gagnaskráningin (sjá neðar) að vera vel úr garði gerð. Þá er einnig mjög gott að stilla upp AMP síðum sem og að vera með myndir í góðri upplausn.

Það er auðvelt að fylgjast með hvernig vefurinn birtist í Google Discover í Google Webmaster Tools

Gagnaskráning

Schema og Structured data er ekki aðeins hugsað til að þess að komast inn í Featured snippet eða önnur Rich Results, heldur er þetta tól nauðsynlegt leitarvélum til að skilja efni síðunnar þinnar sem og hvernig það efni tengist öðru efni á netinu.

Með því að tryggja að öll gagnaskráning (s.s. schema og entity skráningar) sé rétt unnin má oft ná virkilega góðum árangri og fá meiri umferð í gegnum leitarvélar. Við höfum unnið að þessu jafnt og þétt með mörgum af okkar viðskiptavinum og séð virkilega góðan árangur.

Í kjölfar slíkrar skráningar er mikilvægt að fylgjast vel með umferðinni í vefgreiningartólum, eins og Google Analytics, og gera lagfæringar þar sem þeirra er þörf. 

Þróun í leitarvélabestun - organic umferð
Gagnaskráning hjá viðkomandi viðskiptavini var uppfærð og betrumbætt í október.

Hraði vefsíðu

Google leggur sífellt meiri áherslu á að hraði upphleðslu á vefsíðum sé góður. Þannig gaf fyrirtækið út sumarið 2018 að hraði myndi spila sífellt stærra hlutverk í röðun leitarniðurstaðna og mun sú þróun halda áfram á þessu ári.

Það er því mikilvægt að við nýtum okkur tól á borð við Page Speed Insights frá Google eða GTMetrix til að átta okkur á, hvaða þættir vefsíðunnar okkar eru að hægja á. Google miðar við að notendur séu að heimsækja síðuna í gegnum 3G net í síma og ef síðan þín er lengi að hlaðast upp, er hættan alltaf sú að Google raði henni neðar.

Þannig kynnti Google á síðasta ári nýjar hraðaskýrslur í Google Search Console, sem sýnir kannski enn frekar hversu mikla áherslu fyrirtækið leggur á þetta.

Samantekt

Í stuttu máli sagt, þá gildir vissulega enn mantran: “Content is king” en í dag þurfum við að bæta við hana klausu um tilgang og samhengi. Þannig mætti kannski uppfæra möntruna og segja: “Content is king but context is kingdom.”

Enn er mikilvægt að útbúa gott efni, en ekki síður mikilvægt að tryggja að efnið sé í góðu samhengi við leit og tilgang leitar notandans. Þannig fáum við ekki bara meiri umferð, heldur rétta umferð. Til að svo megi verða, þarf að tryggja að gagnaskráningin sé rétt unnin.

Þá hefur ekkert dregið úr mikilvægi hraða á upphleðslu vefsíðu frá fyrra ári og ætti að vera forgangsverkefni allra vefstjóra.

Við getum aðstoðað

Ekki hika við að hafa samband ef það er eitthvað sem við getum aðstoðað þig við leitarvélabestun.

Comments are closed.