Hvert er virði leitarvélabestunar og hvernig er hægt reikna það út? Hvaða virði skilar organic umferð? Við fáum oft viðlíka spurningar frá viðskiptavinum okkar og hér má finna svör við þeim.
Oft þegar ég ræði við viðskiptavini um leitarvélabestun horfa þeir á mig eins og ég sé að útskýra fyrir þeim galdra eða nýjustu kenningar í skammtafræði. Ég skil það mæta vel, enda getur leitarvélabestun oft orðið býsna tæknileg og erfitt að útskýra hana án þess að nota mikið af illskiljanlegum íðorðum.
Þá þarf ég oft að staldra við og minna mig á, að það hafa ekki allir sömu ástríðu og ég fyrir þessu. En það sem viðskiptavinir vilja hins vegar vita, og hafa mikla þekkingu á, er einkum tvennt:
- Hversu mikið mun leitarvélabestunin kosta?
- Hverju mun hún skila í krónum og aurum?
Leitarvélabestun er ólíkindatól og það getur stundum verið erfitt að svara þessum spurningum, sérstaklega þar sem oft er litið á lífræna eða organic umferð sem fría umferð eða umferð sem ekkert kostar. Hvernig setur maður virði á eitthvað sem hingað til hefur verið álitið verðlaust eða frítt?
En þetta er ekki svona einfalt. Það er ekki til neitt sem heitir ókeypis umferð, við þurfum alltaf að kosta einhverju til svo að notendur sjái ástæðu til að heimsækja vefina okkar. En hvernig reiknum við þá út virði bestunarinnar og hverju hún getur skilað?
Virði lífrænnar/organic umferðar
Til að átta okkur á núverandi stöðu er gott að byrja á því að reikna út meðalvirði hverrar sölurásar eins og þær eru núna. Það er hægt að gera með eftirfarandi formúlu:
Meðalvirði hverrar heimsóknar = Kauphlutfall sölurásar x Meðalvirði kaupa
Eðli málsins samkvæmt, ef þú ert ekki að reka vef þar sem ýmist kaup fara fram eða viðskiptavinir framkvæma aðrar aðgerðir sem skapa fyrirtækinu mælanlegt virði, þá gengur erfiðlega að nota þessa jöfnu.
Ef við gefum okkur hins vegar að meðalvirði kaupa sé 5.000 kr. og kauphlutfall lífrænnar umferðar sé 1,15%, þá er virði hverrar slíkrar heimsóknar 57,5 kr. Þá getur verið sniðugt að skoða meðalvirði hverrar heimsóknar á helstu lendingarsíðurnar.
Þetta er vissulega ákveðin einföldun á þessum útreikningi, eins og þeir sem hafa gaman af því að grúska í þessu vita. Ef þú vilt virkilega grafa upp meðalvirði hverrar heimsóknar þarftu að útiloka leitarorð sem tengjast vörumerkinu beint. Þannig færðu hreinni niðurstöðu og þá sérstaklega ef þú skoðar þetta niður á hvert leitarorð fyrir sig. Til þess þarftu að hafa aðgang að Google Search Console.
Að reikna út virði leitarorða
Nær allir sem spá í markaðsmálum horfa til þess að endurheimta virði þess sem lagt er í markaðssetningu. Margar mismunandi leiðir eru til þess að reikna ROI af markaðsaðgerðum, en leitarvélabestun er jú ein af þessum aðgerðum og því þarf hún að skila sér aftur í kassann, ef svo mætti að orði komast.
Grundvöllur þess að finna út virði leitarvélabestunar er leitarorðagreining, hvort heldur sem er greining á þeim orðum sem eru nú þegar að skila umferð eða þeim orðum sem ætlað er að skili umferð að lokinni bestun.
Leitarorðagreining hjálpar okkur að átta okkur á stærð hvers leitarorðs sem og hversu mikil vinna er fólgin í að ná þeim árangri sem til er ætlast.
Því næst notum við eftirfarandi jöfnu:
Áætlað mánaðarvirði = Fjöldi leita í mánuði x Smellihlutfall x Meðalvirði hverrar heimsóknar
Ef við setjum leitarorðið skór, sem er með um 720 leitir í mánuði skv. Keywordtool.io, og reiknum með því að vera í fyrsta sæti (með rétt um 35% smellihlutfall) þá er umreiknað virði þess leitarorðs í hverjum mánuði 14.490 kr., þ.e. notendur sem leita að skóm á Google munu líklega skila okkur um 15 þúsund krónum í mánuði í veltu.
Heildarvirði leitarvélabestunar
Til að fá heildarvirði leitarvélabestunar verðum við þá að skoða mánaðarvirði hvers leitarorðs fyrir sig annars vegar og hins vegar margfalda það með þeim fjölda mánaða sem á við.
Þannig gæti dæmið hér að ofan átt við um 10 svipuð orð, sem eru þá samanlagt með mánaðarvirði upp á 144.900 kr. Ef um væri að ræða 12 mánaða vinnu, væri virði þeirra um 1.740.000 kr.
Þetta er vissulega einföldun, en gefur vonandi ákveðna mynd af því hvernig er hægt að reikna út virði leitarvélabestunar og hverju hún getur skilað. Það koma vissulega fleiri þættir inn í þetta, sem erfitt getur verið að sjá fyrir, t.d. getur meðalvirði hverrar heimsóknar breyst hratt eftir því sem fleiri notendur koma inn á vefinn eða meðalvirði kaupa ýmist hækkað eða lækkað.
Þá getur verið mikill munur á smellihlutfalli milli stuttra og langra leitarstrengja (e. short tail & long tail), sem hefur heilmikil áhrif á niðurstöðurnar.
Því er gott að skoða virði leitarorða jöfnum höndum.
Virði leitarvélabestunar
Þegar allt kemur alls, þá er virði leitarvélabestunar og lífrænnar umferðar síst ofmetið. Hér er oft um að ræða notendur í kauphugleiðingum og þar af leiðir er lífræna umferðin oft sú sölurás sem stendur hvað best undir sér. Þannig er fjárfesting í leitarvélabestun alltaf fjárfesting til framtíðar.
Leitarvélabestun er hins vegar langhlaup, í raun maraþon, en ekki spretthlaup, eins og kaup á vefborðum og auglýsingum á leitarvélum geta stundum verið. Það getur tekið tíma að ná tilætluðum árangri, en hann skilar sér undantekningalítið til lengri tíma litið.
Ekki hika við að hafa samband ef við getum aðstoðað þig við að koma vefnum þínum á kortið.